Endilega kynnið þið ykkur hvað lesendur segja um bókina

Umsagnir um bókina 

Mér fannst efni bókarinnar mjög áhugavert og dreg ekki í efa að það á erindi til margra. Ég var hótelstjóri á Edduhóteli í 25 ár og kynntist því ágætlega að reikna út laun, halda launabókhald, vesenast með fylgiskjöl, vera dauðhræddur um að týna þeim o.s.frv. Það hefði verið flott að hafa bókhald eins og talað er um í bókinni og fá upplýsingar samstundis um ýmis atriði er lutu að rekstrinum.


En mitt bókhald var ekki tölvuvætt, enda tölvur ekki til fyrri hluta míns tímabils á Eddunni. En síðustu árin notaði ég forritið "Laun" frá Einari Skúlasyni. Mér fannst það stórkostleg bylting frá því að sitja kófsveittur yfir reiknivélinni klukkutímum saman. Þegar maður var búinn að læra þetta, þurfti bara að færa inn grunnupplýsingar, síðan nægði að mata tölvuna á tímunum og "abracadabra" launin birtust á svipstundu! Þetta var nánast eins og andinn sem spratt upp úr lampanum hans Aladdíns.


Þessi bók er líka læsileg og laus við sérhæfða orðfærið fyrir innvígða sem því miður einkennir fjármálaheiminn alltof mikið. Hún hentar einmitt afar vel fyrir þá sem reka minni fyrirtæki og hafa ekki hagnýtt sér bókhaldið sem upplýsingaveitu eins og þeir gætu gert og eins og bókin kennir þeim að gera.


Ég spái því að þessari bók verði vel tekið.

 

Rafn Kjartansson